Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Sveitarfélagið Árborg sýknuð af öllum kröfum Krónunnar ehf.
Krónan ehf. stefndi Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, ásamt sveitarfélaginu Árborg, fyrir Héraðsdóm Suðurlands. Í máli þessu var deilt um þá ákvörðun stefnda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, frá 6. desember 2016, að brauðmeti í verslun stefnanda á Selfossi skyldi varið með umbúðum eða með öðrum hætti sem tryggði að matvaran spilltist ekki eða mengaðist í meðförum verslunarinnar og krafðist stefnandi ógildingar á þessari ákvörðun. Stefnandi, Krónan ehf., krafðist einnig skaðabóta og viðurkenningar á rétti hans til skaðabóta vegna missis hagnaðar sem leitt hafi af framangreindum kröfum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
Einnig var fullyrt, fyrir Héraðsdómi Suðurlands að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Jafnframt brotið gegn ákvæði í 75. grein stjórnarskrárinnar varðandi atvinnufrelsi. Einnig að jafnræðisregla hafi verið brotin þar sem viðlíka kröfur hafi ekki verið gerðar til framsetningar á grænmeti í grænmetisborði og til sælgætis í nammibar. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands greip til varna og taldi að ekki hefði verið sýnt fram á tjón vegna þessa og að rannsóknarskyldan hefði verið uppfyllt með ítrekuðum eftirlitsheimsóknunum. Þarna er í raun verið að takast á um 30. grein laga nr. 93/1995 um matvæli. Þessi grein heimilar m.a. lögbundnum opinberum eftirlitsaðila að grípa til aðgerða ef rökstuddur grunur er að matvæli séu heilsuspillandi, óhæf til neyslu eða menguð.
Með dómi sem kveðinn var upp af Héraðsdómi Suðurlands þann 4. mars 2019, voru stefndu, Sveitarfélagið Árborg og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sýknuð af öllum kröfum stefnanda, Krónunnar ehf. Jafnframt var Krónunni ehf. gert að greiða hvorum stefnda um sig 1 milljón kr. í málskostnað.
Dóminn í heild er hægt að nálgast hér.
1. apríl 2019 áfrýjaði Krónan þessu máli til Landsréttar.