Lóðir og lendur

Eitt af hlutverkum heilbrigðisfulltrúa Heilbrigðiseftirlitssvæða er að fara í eftirlitsferðir um umdæmið til að kanna almenna umgengni og þrifnað á lóðum og lendum. Heilbrigðisnefndir hafa heimild til að fjarlægja lausamuni sem eru til óþrifnaðar eða lýta s.s. númerslaus ökutæki, bílflök, kerrur (þmt. eftirvagna), vinnuvélar. Heilbrigðisfulltrúar bregðast við kvörtunum og ábendingum um númerslaus ökutæki sem berast frá starfsmönnum sveitarfélaganna, íbúum, gestum þeirra og vegfarendum. Hver ábending/kvörtun er skráð niður og skoðuð við fyrsta hentugleika og gripið til aðgerða sé tilefni til.  

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að hafa samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands með því að senda tölvupóst á hsl@hsl.is

Um ábyrgð eiganda eða umráðamanns húss, mannvirkis og/eða lóða

Lóðarhafar eru ábyrgir fyrir því að umgengni lóðar sé í samræmi við lög og reglugerðir. Þannig segir í reglugerð nr. 903/2024 um hollustuhætti:

18. gr, 1. mgr.:

Ganga skal frá lóðum og girðingum þannig að fólki stafi ekki hætta af. Halda skal lóðinni hreinni, koma í veg fyrir óþarfa óþrifnað og tryggja að þeir sem þar dvelja eða leita þjónustu verði ekki fyrir óþægindum“,

18. gr, 2. mgr.:

,,Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun, óþrifnaði eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.

og 18 gr. 3. mgr.:Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Tilkynna skal lóðareiganda eða eiganda lausamunar um málið eftir því sem kostur er, til að stuðla að því að hlutaðeigandi hafi fengið vitneskju um málið og gefist færi á að bregðast við áður en hluturinn er fjarlægður, sbr. einnig reglugerð um meðhöndlun úrgangs.”.

Í reglugerð nr. 803/2023 um meðferð úrgangs, segir:

,,Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum.

Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í því skyni er heilbrigðisnefnd heimilt að:

  1. krefjast lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðareða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið,
  2. fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu,
  3. láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. meðálímingarmiða með aðvörunarorðum, og
  4. hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.

Sveitarstjórn skal sjá um að hreinsun fari fram á opinberum stöðum, t.d. görðum og torgum.

Lögveð í fasteign

Bent er á að kostnaður sem til fellur, er tryggður með lögveðsrétti í húsi, lóð eða tæki, sbr. 61. gr. 2. mgr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

 

Þetta þýðir að við lóðahreinsanir á vegum Heilbrigðiseftirlitsins fær embættið lögveð í lóð og fasteign og getur krafist uppboðs á húsi, lóð eða tæki til greiðslu á vinnu og útlögðum kostnaði.

Málsskot

Um valdsvið og þvingunarúrræði heilbrigðiseftirlits vísast í 60. og 61. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimilt er að kæra málsmeðferð og aðgerðir Heilbrigðiseftirlits Suðurlands til sérstakrar úrskurðarnefndar sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Slík kæra eða málsskot frestar þó ekki réttaráhrifum ákvörðunar.