Sjúkdómsvaldandi bakteríur í kjöti á markaði 2018 - skýrsla
Niðurstöður skimunar fyrir STEC benda til að shigatoxín myndandi E. coli sé hluti af náttúrulegri örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár. STEC fannst í 30% sýna af lambakjöti og 11,5% sýna af nautgripakjöti. Framhald er á þessum rannsóknum í ár. Ljóst er að rannsaka þarf betur STEC í kjöti og skerpa þarf á fyrirbyggjandi aðgerðum í sláturhúsum og kjötvinnslum til að minnka líkur á að STEC berist í kjötið. Hreinleiki gripa skiptir hér einnig máli og því þarf að reyna að koma í veg fyrir að óhreinum gripum sé slátrað í sláturhúsi.
STEC (Shiga Toxin-producing Escherichia Coli) er eiturmyndandi tegund E. coli. STEC getur valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur en einnig getur sjúkdómurinn leitt til nýrnaskaða, svokallað HUS (Hemolytic Urea Syndrome). Fólk getur smitast af STEC með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við smituð dýr, eða umhverfi menguðu af saur þeirra.
Matvælastofnun hefur birt niðurstöður í skýrslu, sjá hér