Samþykkt um vatnsvernd á Suðurlandi og Kortavefur Suðurlands

Sameiginleg samþykkt um vatnsvernd á Suðurlandi hefur verið í vinnslu sl. ár og var tekin til afgreiðslu á aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands 29. október 2021 og samþykkt. Hefur samþykktin nú verið birt í b-deild Stjórnartíðinda sjá slóð: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=5080e83b-8278-4ae2-898a-9d1aaa50b426 . Slík samþykkt er mikilvægt verkfæri fyrir starfsmenn sveitarfélaganna til að hafa gildandi lög og reglur á hraðbergi varðandi málaflokkinn og þær kröfur sem gerðar eru varðandi umgengni á vatnverndarsvæðum sem hafa verið skilgreind. Vatnsverndarsvæðum er skipt upp í brunnsvæði, grannvæði og fjarsvæði og skulu merkt inn á aðalskipulagi. Nýtingu lands eru settar skorður með vatnsverndarsvæðum. Mikilvægt er að skilgreina vatnsvernd umhverfis vatnsból til að koma í veg fyrir mengun neysluvatns til lengri og skemmri tíma. Girða verður síðan kringum sjálft vatnsbólið svo umferð manna og dýra sé sem allra minnst næst vatnsbólinu eða á því svæði sem kallast brunnsvæði. Reynslan hefur jafnframt sýnt að gott öryggiskerfi eða innra eftirlit getur komið í veg fyrir slæmar uppákomur eins og mengun af ýmsum toga.

Vatnsverndarsvæði á Suðurlandi er hægt að finna á Kortavef Suðurlands, sjá slóð: https://www.sass.is/kortavefur/