Mikilvægi hreinlætis, þrifa og sótthreinsunar á tímum faraldurs

Hreinlæti og þrif á almannafæri

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands leggur áherslu á að almenn þrif séu fullnægjandi, ekki síst á þeim stöðum sem almenningur leitar til með þjónustu. Starfsfólk er hvatt til að sinna þrifum vel á sínum starfsstöðvum. Bent er á leiðbeiningar sem koma frá landlækni og heilbrigðisfólki varðandi sóttvarnir, almenna umgengni og þrif þ.e.:

  • Gæta vel að hreinlæti, þvo hendur reglulega með volgu vatni og sápu og nota handspritt
  • Forðast snertingu við augu, nef og munn
  • Þrífa reglulega yfirborðsfleti t.d. hurðarhúna, handrið, lyftutakka, lyklaborð, ljósarofa o.fl.
  • Sleppa handaböndum og faðmlögum, heilsa fremur með brosi 🙂 

Mikilvægt er að farið sé að fyrirmælum Landlæknis, sjá slóð: https://www.landlaeknir.is/koronaveira/

Hver og einn þarf að huga sérstaklega að sínu nærumhverfi bæði á vinnustöðum og heimili með tilliti til þrifa og góðrar umgengni. 

Hreinlæti í íþróttasölum

Á stöðum þar sem almenningur sækir þjónustu svo sem í íþrótta- og líkamsræktarsölum er nauðsynlegt að aðgengi að handþvottaaðstöðu og handspritti sé gott. Mikilvægt er að íþróttaiðkendur hugi vel að hreinlæti og að þeim sé bent á að:

  • Nota handspritt í tækjasal
  • Koma með sín eigin æfingahandklæði
  • Þvo hendur mjög vel eftir æfingu
  • Forðast snertingu við augu, nef og munn

Innra eftirlit og matvælaöryggi

Matvælafyrirtæki skulu starfrækja matvælaöryggiskerfi nú sem áður.  Framkvæmd slíks kerfis á fullnægjandi hátt stuðlar að öryggi matvæla og um leið almennings.  Nánari upplýsingar um innra eftirlit er að finna á vef Matvælastofnunar: https://www.mast.is/is/matvaelafyrirtaeki/innra-eftirlit-fyrirtaekja/almennt

Á vef Landlæknisembættisins eru almennar leiðbeiningar um sóttvarnir, umgengni og þrif – sjá slóð: https://www.landlaeknir.is/

Notkun hanska kemur ekki í staðinn fyrir handþvott

Þá vill Heilbrigðiseftirlit Suðurlands undirstrika mikilvægi handþvotta hjá öllum almenningi sem og starfsmönnum fyrirtækja og stofnana og minnir á að notkun hanska kemur ekki í staðinn fyrir góðan handþvott.