Losun seyruvökva innan verndarsvæðis Þingvalla

Losun seyruvökva innan verndarsvæðis Þingvalla

Losun seyruvökva innan verndarsvæðis ÞingvallaFöstudaginn 13. ágúst var fyrirtækið Holræsa- og stífluþjónustan staðið að því að losa seyruvökva út í umhverfið í landi Kárastaða innan verndarsvæðis Þingvalla. Var fyrirtækið að vinna að losun rotþróa á svæðinu.

Í kjölfarið var fyrirtækinu veitt áminning vegna brota á starfsleyfisskilyrðum fyrirtækisins skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Jafnframt er Holræsa- og stífluþjónustunni gert skylt að skila mánaðarlega inn upplýsingum til eftirlitsins , er varða staði sem unnið er á, magn seyru við losun, förgunarstað og fleiri atriði er varða resktur búnaðar, hreinsun og viðgerðir. Ennfremur er fyrirtækinu gert skylt að tilkynna fyrirfram til þjóðgarðsvarðar þegar verk er unnið innan verndarsvæðisins. Þá er starfsmönnum eftirlitsins falið viðbótareftirlit með fyrirtækinu.

Niðurstöður sýnatöku af umræddum vökva staðfestu að um óhreinsað skólpvatn var að ræða. Voru neysluvatnssýni, tekin úr tveimur bústöðum á svæðinu einnig óneysluhæft vegna of hás gerlainnihalds, þó einungis annað vegna kólígerlamengunar.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand neysluvatns fyrir atvikið, né heldur upplýsingar um fyrirkomulag fráveitna á svæðinu. Því er ekki hægt að staðfesta að mengunin stafi af gáleysi fyrirtækisins. Nauðsynlegt er því að fylgjast með breytingum á neysluvatninu til að geta metið niðurstöðurnar frekar.  

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands mun halda áfram að vakta neysluvatn á svæðinu þar til fullvisst er að hugsanlega mengunarhætta  sé ekki lengur fyrir hendi.

Á meðan eru sumarhúsaeigendur í landi Kárastaða fyrir neðan veg, sbr. mynd, beðnir um að sjóða drykkjarvatn.