Hundagisting tímabundin undanþága - Fosshótel Hekla og Fosshótel Núpar

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt undanþágu frá reglugerð um nr. 941/2002 um hollustuhætti vegna viðveru hunda á tveimur hótelum á Suðurlands skv. umsóknum þar að lútandi frá Íslandshótel hf. fyrir tvö hótel á Suðurlandi. Undanþágan gildir fyrir tiltekin afmörkuð rými hótelanna. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur tilkynnt um breytingar á starfsleyfisskilyrðum með viðauka sem koma fram í bréfum fyrir:

 • Fosshótel Heklu, Brjánsstöðum, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, 804 Selfoss, sjá slóð hér
 • Fosshótel Núpa, Núpum, Skaftárhreppi, 881 Kirkjubæjarklaustur Sjá slóð hér

Undanþágan er veitt með eftirfarandi skilyrðum og gildir til 1. janúar 2023:

 1. Ábyrgðamaður hunds skal vera 18 ára eða eldri og ber honum að tryggja að ekki sé farið með hunda nema á þau afmörkuðu svæði þar sem þeir eru sérstaklega leyfðir. Hver ábyrgðarmaður getur haft með sér einn hund til dvalar á gististaðnum og að hámarki séu ekki fleiri en tveir hunda í hverju herbergi.
 2. Ábyrgðarmaður hunds ber ábyrgð á hreinlæti í tengslum við hundinn og ber að hreinsa upp eftir hann sé þörf.
 3. Ábyrgðarmaður hunds ber ábyrgð á að grípa til aðgerða sé þess þörf til að tryggja öryggi annarra gesta eða hunds.
 4. Taka skal fram við bókun að hundur fylgi, þar sem sérstökum herbergjum er úthlutað.
 5. Fara skal með hunda inn og út um sérinnganga og óheimilt er að fara með hunda inn á sameiginleg rými, þ.m.t. gestamóttöku.
 6. Hundar skulu vera í búri inn á herbergi.
 7. Hundar skulu ekki valda öðrum gestum ónæði.
 8. Við inn- og útritun skal hundurinn bíða bundinn úti eða í bíl.
 9. Þrifaáætlun skal vera í samræmi við að hundar dvelji á hluta hótelsins og að það sé tryggt að sérstaklega sé þrifið eftir dvöl hunda þar í hvert sinn.
 10. Taka skal fram í markaðssetningu hótelsins, við bókun gistingar og á vefsíðu þess að hundar séu leyfðir í afmörkuðum hluta hótelsins, svo aðrir gestir geti tekið upplýsta ákvörðun áður en þeir panta gistingu á hótelinu.
 11. Upplýsa skal aðra gesti hótelsins með sýnilegum hætti um að hundar séu leyfðir á afmörkuðum svæðum á hótelinu.
 12. Upplýsa skal gesti með greinilegum hætti allt í fjórar vikur eftir að undanþágan fellur úr gildi um að hundur hafi verið í húsnæðinu og á tilteknu herbergi.
 13. Ábyrgðarmaður hunds ber almenna ábyrgð á skaða og/eða eignatjóni sem hundur veldur. Íslandshótel hf. skal þó taka ábyrgð á skaða og/eða eignatjóni sem hundur sem dvelur á gististað kann að valda öðrum gestum á gististaðnum.
 14. Fara skal eftir samþykktum um hundahald í þeim sveitarfélögum sem gististaðirnir eru í.

Auk ofangreinds hefur Íslandshótel hf. sett fram skilyrði skv. umsóknarbréfi til ráðuneytisins dags. 26. nóvember 2021 og skal rekstraraðili jafnframt sjá um að framfylgja þeim skilyrðum.