Neyðarstig vegna COVID-19 - Handþvottur - besta sóttvörnin

6. mars 2020

Neyðarstig vegna COVID-19

https://www.landlaeknir.is/koronaveira/

Handþvottur er mikilvægasta sýkingavörnin sem hægt er að viðhafa því snerting, bein og óbein, er lang algengasta smitleið sýkla milli manna.  Með höndunum snertum við allt umhverfi okkar og með þeim komast sýklar inn í slímhúð í munni, nefi, augum og kynfærum og geta valdið sýkingu.  Með höndunum geta sýklar komist í matvæli og borist þannig yfir í aðra.  Vandaður handþvottur er því afar mikilvægur hvort sem honum er beitt til að vernda sjálfan sig eða umhverfið.

Við rannsóknir og athuganir hefur komið fram að almennt virðist fólk ekki þvo sér nægilega oft né nægilega vel um hendurnar.  Nauðsynlegt er að taka af sér skartgripi áður en hendur eru þvegnar því undir skartgripum geta leynst mikil óhreinindi.  Við handþvottinn sjálfan verður að muna að þvo öll svæði vel t.d. á milli fingranna, fingurgóma og neglur.

Hendurnar þarf ávallt að þvo með vatni og sápu og þurrka vel:

  • áður en hafist er handa við matreiðslu
  • fyrir og eftir máltíðir
  • eftir salernisferðir
  • eftir beina snertingu við sár, blóð og hvers kyns líkams¬vessa, manns eigin eða annarra
  • eftir bleiuskipti á barni
  • eftir snertingu við dýr

Eðlilegur bakteríugróður á húð er öllum mönnum nauðsynlegur og er hann hluti af varnarkerfi okkar.  Þessum eðlilega bakteríugróðri er gjarnan skipt í annars vegar staðbundinn bakteríugróður sem er í neðri húðlögum og þvæst ekki svo auðveldlega af og hins vegar í flökkugróður en það eru bakteríur og annað smitefni sem kemur á húðina í dagsins önn og þvæst oftast auðveldlega af.

Vel útfærður handþvottur með fljótandi sápu og vatni fjarlægir 90% af því smitefni sem maður getur haft á höndunum og er það ásættanlegur árangur við allar venjubundnar aðstæður.  Við matvælaframleiðslu og við störf á sjúkrahúsum eru hins vegar gerðar meiri kröfur og þá eru gjarnan notuð sótthreinsandi efni til að fjarlægja enn meira af bakteríunum af húð handanna.

Vel framkvæmdur handþvottur dregur úr líkum á að smitast af ýmsum sýkingum, s.s. inflúensu, niðurgangi og augnsýkingum.

Aðferð til að nota við handþvott og handsprittun

  • Endurtakið a.m.k. fimm sinnum hvert atriði handhreinsunarinnar
  • Stöðluð aðferð sem tryggir að ekkert svæði handanna verði útundan
Heimild: Landlæknisembættið