Sorpbrennslustöðvar á Suðurlandi

Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands þann 14. janúar sl. var farið var yfir málefni sorpbrennslustöðva á svæði Heilbrigðisnefndar Suðurlands í ljósi upplýsinga sem nefndinni bárust nýlega.

Almennar umræður urðu um málið og var eftirfarandi bókað:

”Á svæði Heilbrigðisnefndar Suðurlands starfa tvær sorpbrennslur, á Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum, með starfsleyfi og undir eftirliti Umhverfisstofnunar. Nú hefur komið fram að díoxínmæling sem gerð var árið 2007 sýndi styrk efnisins langt yfir núgildandi viðmiðunarmörkum nýrra sorpbrennslustöðva.

Samkvæmt markmiðum þeirra laga sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga starfa eftir ber að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Til að svo megi vera er nauðsynlegt að upplýsingar er snerta almannheill berist viðkomandi nefndum. Upplýsingar um mælingar á magni díoxíns í útblæstri sorpbrennslustöðva í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri bárust fyrst til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands mánudaginn 3. janúar sl. Heilbrigðisnefnd Suðurlands harmar að jafnmikilvægar upplýsingar hafi ekki verið kynntar nefndinni strax og upplýsingum komið skilmerkilega á framfæri við íbúa í nágrenni umræddra stöðva.

Vill Heilbrigðisnefnd Suðurlands beina þeim eindregnu tilmælum til Umhverfisstofnunar að fylgja málum þannig eftir að nú þegar verði lágmörkuð hætta á myndun díoxíns í útblæstri. Ennfremur vill Heilbrigðisnefnd Suðurlands beina sömu tilmælum til viðkomandi sveitarfélaga að bregðast nú þegar við til að tryggja lágmörkun á myndun díoxíns td. með frekari flokkun úrgangs til brennslu og hærri eftirbruna.

Hvetur nefndin þessa aðila, sveitarfélögin og Umhverfisstofnun, til að taka höndum saman varðandi málið með hagsmuni almennings, heilnæmra lífsskilyrða og alls lífríkis.

Að lokum beinir Heilbrigðisnefnd Suðurlands þeim eindregnu tilmælum til Umhverfisstofnunar og umræddra sveitarfélaga að flýta nýrri sýnatöku eins og kostur er í ljósi breyttra aðstæðna á þessum brennslustöðvum.“