Frá Umhverfisstofnun

Tilkynning vegna svifryks vestan Eyjafjallajökuls

Í gær og í dag hefur orðið nokkuð öskufall á svæðinu fyrir vestan Eyjafjallajökul, þ.m.t. á og við Hvolsvöll. Athygli hefur vakið að þrátt fyrir það mældist langt fram eftir degi lítið sem ekkert af svifryki á loftgæðamæli Reykjavíkurborgar sem nú er staðsettur á Hvolsvelli. Þetta stafar af því að með öskufallinu hefur verið rigning sem skolar fínni öskunni úr andrúmsloftinu og heldur henni niðri.
Þegar þornar má fastlega gera ráð fyrir því að styrkur svifryks aukist hratt, ekki síst ef vind hreyfir, og af götum þegar bílar aka um þær. Nú seinnipartinn hefur þessa augljóslega gætt og kl. 15 rauk mælirinn upp í 300µg/m3. Samkvæmt veðurspá er gert ráð fyrir þurru veðri um helgina. Ef sú spá gengur eftir má gera ráð fyrir svifryksmengun í kvöld og um helgina.
Umhverfisstofnun minnir á að umhverfismörk miða við meðal-sólarhringsgildi og því er ekki víst að mengunin fari yfir skilgreind mörk þó að há skammtímagildi mælist. Fylgjast má með loftgæðum á Hvolsvelli á slóðinni www.loft.rvk.is færanleg mælistöð)
Halda má ryki að einhverju leyti í skefjum með því að skola/vökva götur og hús. Einnig vísar stofnunin til leiðbeininga um öskufall, sjá http://ust.is/Adofinni/Frettir/nr/6573.