Icewater og íbúafundur með sumarbústaðaeigendum við Þingvallavatn
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er í hópi 22 aðila sem hafa undir forystu Umhverfisstofnunar hlotið 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu fyrir verkefnið LIFE ICEWATER. Þessi styrkur er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið frá evrópskum samkeppnissjóði. Markmið verkefnisins er að tryggja innleiðingu á hinni svokölluðu vatnatilskipun, bæta vatnsgæði á Íslandi, auka þekkingu á vatnsauðlindum, tryggja samræmda stjórnsýslu í vatnamálum og fræða almenning.
Life Icewater verkefni má finna um allt land, þar á meðal við Þingvallavatn og sér Heilbrigðiseftirlit Suðurlands um verkefni sem snýr að fráveitu við Þingvallavatn. Um fráveitu á verndarsvæði Þingvalla gilda sérstakar og strangari reglur en annars staðar og er markmiðið að HSL fái yfirsýn yfir fráveitu á svæðinu, fræða almenning og leiðbeina eigendum sem þurfa að gera úrbætur. HSL sendi bréf á lóðarhafa næst vatninu þann 13. júní síðastliðinn þar sem þau voru beðin að skrá sína fráveitu. Annað bréf var svo sent um miðjan ágúst þar sem fólk var minnt á að skrá núverandi fráveitu og íbúafundur auglýstur.
„Við erum fullviss um að samstarf við lóðarhafa verði gott – enda er það hagur okkar allra að Þingvallavatn haldi sínum einstaka tærleika“. Sagði Sigrún framkvæmdastjóri HSL.
Nú þegar hafa margir lóðarhafar skráð sínar fráveitur og þökkum við þeim kærlega fyrir frábær viðbrögð við beiðni okkar. Við hvetjum þá sem enn eiga eftir að skrá sína fráveitu að gera svo hið snarasta.
Heilbrigðiseftirlitið vonast eftir góðri mætingu á íbúafundinn sem verður haldinn miðvikudaginn 3. september á Nauthóli, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík, kl 17:30.